Ferðaþjónustuárið - Efnahagsmál
Árið 2023 var fyrsta heila árið síðan 2019 þar sem engar ferðatakmarkanir voru í gildi hérlendis og stefndi lengi vel í að það yrði án verulegra ytri áfalla fyrir starfsemi ferðaþjónustunnar. Aftur á móti varð sú ekki raunin þar sem jarðhræringar á Reykjanesi settu, vægt til orða tekið, strik í reikninginn. Eldsumbrotin og fréttaflutningur tengdur þeim höfðu – og hafa líklega enn – í för með sér neikvæð áhrif á eftirspurn, að minnsta kosti tímabundið. Líkt og fram kom hjá innlendu flugfélögunum, Icelandair og Play, dró nokkuð hratt úr sölu á flugferðum til Íslands og voru nýtingarhlutföll heldur verri en búist var við og felldu bæði flugfélögin þáverandi afkomuspár sínar úr gildi í nóvember síðastliðnum. Þá er ónefnt það rekstrarumhverfi sem ferðaþjónustufyrirtæki og önnur fyrirtæki hér á landi bjuggu við á árinu 2023 sem og verkföll flugumferðastjóra í lok árs. Verðbólga var að meðaltali 8,7% á árinu, meginvextir Seðlabanka Íslands hækkuðu úr 6% upp í 9,25%, launakostnaður á framleidda einingu hækkaði um 8,6% að meðaltali[1] og gengi krónunnar hækkaði um 1,5% á árinu 2023. Gengi krónunnar, miðað við skráða gengisvísitölu, styrktist á fyrstu átta mánuðum ársins en veiktist nokkuð í september, október og framan af nóvember og hélst síðan tiltölulega stöðugt í desember[2].
Umsvif ferðaþjónustu héldu samt sem áður áfram að vaxa árið 2023, miðað við fyrri ár. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2023 náði nýjum hæðum og er áætlaður 8,5% samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum ferðaþjónustureikninga, samanborið við 7,5% árið á undan. Á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir komu heimsfaraldurs kórónuveiru, nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að jafnaði 8,2%[3].
[1] https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Peningamal/2024/februar-2024/PM_241%20-20Copy%20(1).pdf
[2] https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Gjaldeyrismal/Frettatilkynning_gjaldeyrismarkadur_gengi_fordi_2023.pdf
[3] https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/thjodhagsreikningar/hlutur-ferdathjonustu-i-landsframleidslu-2023-aaetlun/?fbclid=IwAR1itbjgLlnSxot0Tujb65L1Wudi085KSlkVECdz1JVJEam_XZ65PszvEGc
Þegar litið er til þeirra útflutningsverðmæta sem íslensk ferðaþjónusta skapaði síðastliðið ár námu þau tæpum 600 milljörðum króna eða um 32% af heildarútflutningi þjóðarbúsins, það er um 35% aukning frá fyrra ári miðað við fast gengi ársins 2023.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustu
Útflutningstekjur af erlendum ferðamönnum, hérlendis og erlendis, námu um 447 milljörðum króna á árinu 2022, það er 127% hækkun frá fyrra ári á föstu gengi ársins 2022. Farþegaflutningar með flugi skiluðu um 118 milljörðum króna í útflutningstekjur ferðaþjónustu árið 2022 og ferðalög um 329 milljörðum, hlutur farþegaflutninga með flugi var því um 26,5% og hlutur ferðalaga um 73,5%.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar skiptast niður í þjónustuviðskipti eftir tveimur flokkum, ferðalög og farþegaflutningar með flugi, það eru tekjur af erlendum ferðamönnum á Íslandi og tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþegar hvort sem það er til og frá Íslandi eða annarsstaðar. Farþegaflutningar með flugi skiluðu um 173 milljörðum króna í útflutningstekjur árið 2023 og ferðalög um 425 milljörðum króna. Hlutur farþegaflutninga var því um 29% og hlutur ferðalaga um 71% af heildarútflutningstekjum af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis.
Erlendir ferðamenn keyptu vöru og þjónustu hér á landi fyrir um 190 þúsund krónur að meðaltali 2023, sem er rúmlega 1% lægra en árið 2022. Þegar miðað er við einfalt hlutfall útflutningsverðmæta af ferðalögum og heildarfjölda erlendra ferðamanna er um Keflavíkurflugvöll fór á árinu, á föstu gengi ársins
Ferðamenn frá Bandaríkjunum stóðu fyrir stærstum hluta af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu árið 2023 eða um 38%, þar á eftir komu Bretar sem næst stærsta einstaka þjóðríkið með um 8% og Þjóðverjar sátu í þriðja sæti með um 7% hlut. Þrjár stærstu viðskiptaþjóðir íslenskrar ferðaþjónustu stóðu því fyrir rúmlega helming af þeim útflutningsverðmætum sem atvinnugreinin skapaði á árinu, líkt og fyrri ár. Komum asískra ferðamanna fjölgaði jafnframt um 30% frá fyrra ári og stóðu ferðamenn frá Asíu fyrir um 5% af útflutningsverðmætum ferðaþjónustunnar.
Alls komu ríflega 2,2 milljónir erlendra ferðamanna hingað til lands um Keflavíkurflugvöll í fyrra, það er 12% aukning frá því fyrir heimsfaraldur árið 2019 en um 31% aukning frá árinu 2022. Árið 2023 var það næst stærsta í sögunni að þessu leytinu til en aðeins einu sinni áður hafa mælst fleiri, metárið 2018 voru brottfarir 2,3 milljónir erlendra ferðamanna. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir árið 2023, tæplega 630 þúsund talsins eða ríflega fjórðungur allra brottfara um Keflavíkurflugvöll, Bretar voru í öðru sæti en voru þeir um 279 þúsund talsins og Þjóðverjar fylgdu fast á eftir og voru um 136 þúsund. Við bætist svo að allnokkur fjöldi gesta sótti landið heim um aðrar gáttir, með skemmtiferðaskipum og Norrænu. Metár var í komum farþega með skemmtiferðaskipum í fyrra en fjöldi þeirra var 995 þúsund[1] sem er rúmlega 95% fjölgun frá fyrra ári. Athuga skal að hver og einn skemmtiferðaskipafarþegi kemur við í fleiri en einni höfn að meðaltali og því eru komur þeirra mun fleiri en raunverulegur fjöldi farþega.
[1] https://www.cruiseiceland.com/about-us/statistics/
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir árið 2023, tæplega 630 þúsund talsins eða ríflega fjórðungur allra brottfara um Keflavíkurflugvöll, Bretar voru í öðru sæti en voru þeir um 279 þúsund talsins og Þjóðverjar fylgdu fast á eftir og voru um 136
Fjöldi erlendra ferðamanna
Í alþjóðlegum samanburði hélt erlendum ferðamönnum einnig áfram að fjölga á milli ára og nam fjöldi ferðamanna heimsins um 1,2 milljörðum sem er um 34% aukning frá fyrra ári, samkvæmt gögnum Heimssamtaka ferðaþjónustu, UNWTO[1]. Hins vegar eru erlendir ferðamenn um heiminn enn 12% færri en fyrir heimsfaraldur árið 2019. Ísland er í hópi fárra þjóðríkja sem fleiri ferðamenn sóttu heim á árinu 2023 en fyrir heimsfaraldur. Ísland tekur á móti litlum hlut af ferðamönnum heimsins en árið 2023 nam hlutur erlendra ferðamanna er hingað kom um 0,17% af heimsvísu.
[1] https://www.statista.com/statistics/209334/total-number-of-international-tourist-arrivals/
Gistinætur, framboð og nýting hótelherbergja
Samkvæmt fyrstu tölum um gistinætur á árinu 2023 voru þær á öllum tegundum skráðra gististaða tæplega 10 milljónir samanborið við 8,5 milljónir árið 2022 og fjölgaði því um 16% á milli ára. Gistinætur Íslendinga voru um 22% allra gistinátta eða um 2,1 milljónir sem er um 9% aukning frá fyrra ári. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 78% gistinátta eða um 7,8 milljónir samanborið við 6,6 milljónir árið áður.
Meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna var 3,5 gistinætur árið 2023 á öllum tegundum skráðra gististaða og fækkar því um 10% frá fyrra ári. Það er miðað við einfalt hlutfall erlendra gistinátta og komum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll. Erlendir ferðamenn eru þannig að dvelja skemur en fyrir heimsfaraldur og eyða hér að meðaltali um 5% styttri tíma en árið 2019.
Samkvæmt aðferðafræði UNWTO er árstíðarsveifla ferðaþjónustu gjarnan metin sem hlutfall þeirra þriggja mánaða ársins þar sem gestakomur erlendra ferðamanna eru mestar, á öllum tegundum skráðra gististaða viðkomandi áfangastaðar af heildarkomum ársins. Hlutfall þriggja fjölmennustu mánaða ársins af gestakomum af heild hér á landi nam 47% árið 2023. Á Íslandi hefur árstíðarsveifla ferðaþjónustu þróast á hagstæðan hátt þar sem tekist hefur að jafna sveifluna, á þennan mælikvarða, úr um 72% árið 2009 í 47% 2022 fyrir landið í heild.
Meðalfjöldi herbergja á hótelum nam 11.433 árið 2023 eða um 2% fjölgun frá fyrra ári. Höfuðborgarsvæðið stóð fyrir 5.463 eða tæpum helming af framboði herbergja á hótelum hérlendis.
Nýting herbergja á hótelum var tæplega 69% árið 2023 að meðaltali yfir landið allt og jókst um 9% frá fyrra ári. Nýting hótelherbergja var hæst mæld árið 2017 þegar hún náði að meðaltali 72,1% yfir árið.
Nýting herbergja á hótelum var sú þriðja mesta sem verið hefur að meðaltali heilt yfir árið miðað við gögn Hagstofu Íslands. maí, september og október áttu það jafnframt sameiginlegt að ná nýjum hæðum árið 2023 þar sem nýting hótelherbergja var 66%, 82% og 77% í sömu röð í fyrra.
Erlend kortavelta
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam um 315 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt Rannsóknarsetri Verslunarinnar (RSV) og jókst um 30% frá fyrra ári miðað við fast gengi ársins 2023. Upplýsingar um kortaveltu samkvæmt RSV eru eingöngu fengnar frá innlendum færsluhirðingaraðilum og vanmetur RSV því heildarkortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi, að einhverju leyti. Ljóst er að fleiri annmarkar eru á gögnum um erlenda kortaveltu hérlendis aftur á móti gefur erlend kortavelta eftir útgjaldaliðum ákveðna vísbendingu um neysluhegðun erlendra ferðamanna á Íslandi á síðastliðnu ári. Niðurstöður ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2023 verða ekki birtar fyrr en í júní 2024. Gistiþjónusta var stærsti einstaki undirliður erlendrar kortaveltu 2023 og stóð fyrir um 28% af veltunni. Verslun og veitingaþjónusta koma þar á eftir með um 16% hlut hvor af erlendri kortaveltu og þjónusta bílaleiga þar á eftir með um 10% hlut.
Verslun alls samanstendur af stórmörkuðum og dagvöruverslunum, fataverslun, byggingavöruverslanir, raf- og heimilistækjaverslanir, verslanir með heimilisbúnað, tollfrjálsa verslun og aðra verslun.
Heilt yfir dróst erlend kortavelta á hvern ferðamann, miðað við fast gengi ársins 2023, saman um 0,7% á milli ára. Það er einfalt hlutfall erlendrar kortaveltu og fjölda erlendra ferðamanna er hingað kom um Keflavíkurflugvöll sem er í takt við reiknuð útflutningsverðmæti á hvern ferðamann.
Raungengi á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar
Raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hækkaði um 0,2% á milli ára. Í alþjóðlegum samanburði er launakostnaður á Íslandi hár og íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sér í lagi ferðaþjónustufyrirtæki. Raungengi er skilgreint sem hlutfallsleg þróun verðlags eða launakostnaðar á framleidda einingu í heimalandi annars vegar og viðskiptalöndunum hins vegar frá tilteknu grunnári og mælt í sama gjaldmiðli. Samkeppnisstaða innlendra útflutningsatvinnugreina versnaði þar með tiltölulega lítið á milli ára. Aftur á móti er sú staðreynd að launakostnaður sé að hækka meira hér á landi en í helstu viðskiptalöndum ekki ný á nálinni. Á Íslandi hefur það almennt verið svo að laun hérlendis hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist svigrúmi til launahækkana. Það dregur úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi og leggur stein í götu reksturs fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Ísland er hálaunaland sem gerir það að verkum að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Það liggur því augum uppi að atvinnugreinar líkt og ferðaþjónusta, sem vinnuaflsfrekar eru, eiga erfitt uppdráttar í löndum þar sem launakostnaður er hár líkt og raun ber vitni á Íslandi. Enda verða fyrirtæki í ferðaþjónustu að geta boðið samkeppnishæf laun til þess að fá fólk vilji starfa í atvinnugreininni. Tölfræði varðandi laun í ferðaþjónustu er ábótavant, hvort sem um er að ræða í formi birtra launavísitalna eða staðgreiðsluskyldra launagreiðslna. Hagstofan birtir staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinahópum, fjölda launagreiðenda og fjölda starfandi einstaklinga þeirra hópa.
Hlutur einkennandi greina ferðaþjónustu var um 11,7% af öllum staðgreiðsluskyldum launagreiðslum árið 2023 og var hlutur ferðaþjónustu 14,5% af heildarfjölda starfandi einstaklinga sama ár.
Launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu
Þegar litið er til landshluta í þessu samhengi má sjá að stærsti hlutur ferðaþjónustu af staðgreiðsluskyldum launagreiðslum var á Suðurnesjum eða um 28%. Á Suðurlandi var hlutur ferðaþjónustu um 13% og á Höfuðborgarsvæðinu um 10%. Lægstan hlut ferðaþjónustu af staðgreiðsluskyldum launagreiðslum má finna á Vestfjörðum eða um 5,2% árið 2023 og Norðurland Vestra og Austurland eru þar ekki langt á undan með 5,3% það sama ár. Hins vegar er það svo að þegar litið er til staðgreiðsluskyldra launagreiðslna í ferðaþjónustu á landsvísu og hvar þær verða til stóð höfuðborgarsvæðið fyrir meginþunga greiðslnanna eða um 58% árið 2023. Það hlutfall hefur lækkað verulega til að mynda frá árinu 2009 þegar höfuðborgarsvæðið stóð fyrir um 71% af staðgreiðsluskyldum launagreiðslum í ferðaþjónustu á landsvísu.
Launagreiðslur á mann eru töluvert lægri í ferðaþjónustu en þegar litið er til allra starfandi einstaklinga hér á landi. Einfalt hlutfall staðgreiðsluskyldra launagreiðslna og fjölda starfandi einstaklinga reiknast að í ferðaþjónustu voru launagreiðslur á mann að meðaltali um 600 þúsund krónur árið 2023 en 748 þúsund krónur í hagkerfinu öllu.
Mannauður íslenskrar ferðaþjónustu
Mikið hefur verið rætt um hlutverk erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Hlutur starfsfólks með erlendan bakgrunn af fjölda starfandi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu jókst árið 2023 frá fyrra ári og nam 44%. Hlutur starfsfólks sem er af erlendu bergi brotið af öllum starfandi einstaklingum samkvæmt skrám tók sömuleiðis að hækka og var um 23% árið 2023.
Í samanburði við aðrar útflutningsatvinnugreinar og hið opinbera eru einkennandi greinar ferðaþjónustu með hæsta hlutfall innflytjenda en í sjávarútvegi er það sama hlutfall 39%, í atvinnugreinum iðnaðarins er það hlutfall 26% og hjá hinu opinbera 12% árið 2023. Hjá alls starfandi er þetta sama hlutfall 23% árið 2023.
Þegar fjöldi einstaklinga sem starfar í viðkomandi útflutningsatvinnugreinum er skoðaður til samanburðar kemur í ljós að árið 2023 var fjöldi innflytjenda starfandi samkvæmt skrám 14.062 innflytjendur í ferðaþjónustu, 3.273 í sjávarútvegi, 13.284 í atvinnugreinum iðnaðarins og 8.924 innflytjendur hjá hinu opinbera. Alls eru 54.114 innflytjendur sem starfa hjá atvinnugreinum þjóðarbúsins og því ljóst að meginþorri innflytjenda hér á landi starfar í útflutningsatvinnugreinunum okkar. Í ljósi orðræðu landsmanna þess er einkar áhugavert að skoða þróun innflytjenda í viðkomandi atvinnugreinum frá árinu 2017 þar sem fjöldi þeirra sem starfa í ferðaþjónustu hefur aukist um 4.737 einstaklinga. Í atvinnugreinum iðnaðarins hefur sá fjöldi aukist um 5.036 einstaklinga á sama tíma og hjá hinu opinbera hefur starfandi innflytjendum fjölgað um 4.057 einstaklinga.
Töluvert meiri óvissa er nú en áður um framgang ferðaþjónustunnar og líklega fer svo að hægja muni á vexti hennar í ár.
Blikur á lofti – Áskoranir framundan
Rekstur í ferðaþjónustu er í eðli sínu afar sveiflukenndur og háður mörgum óvissuþáttum. Töluvert meiri óvissa er nú en áður um framgang ferðaþjónustunnar og líklega fer svo að hægja muni á vexti hennar í ár. Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 8% á milli ára í janúar en á sama tíma fækkaði gistinóttum erlendra aðila um 10% milli ára í janúar. Eldsumbrotin á Reykjanesi virðast hafa haft meiri áhrif á greinina en í fyrstu var við búist og fréttaflutningur erlendis ýkti stöðuna hér á landi töluvert. Þá er óvissa um alþjóðlegar hagvaxtarhorfur nokkur og mun líklega smitast yfir á innlendar útflutningsatvinnugreinar á árinu, einkum ferðaþjónustuna.
„Aðdráttarafl Bláa lónsins er mikið og hefur óvissan í kringum lónið því áhrif á komur til landsins. Þróun á verðlagi hefur einnig áhrif og er Ísland nú orðið enn dýrari áfangastaður en áður vegna hækkunar verðlags hér á landi. Spár benda til þess að fjöldi ferðamanna verði svipaður eða örlítið meiri en í fyrra en hækkun verðlags hér á landi gæti orðið til þess að dvalartími ferðamanna styttist og þeir dragi úr neyslu sinni á meðan dvölinni stendur“ segir í nýbirtu Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands[1]. Fari svo myndi það hafa neikvæð áhrif á greinina og birtast í lakari afkomu ferðaþjónustufyrirtækja. Ljóst er að bæta verður afkomu og arðsemi í greininni sem og framleiðni ferðaþjónustunnar í heild og margar áskoranir framundan. Það eru blikur á lofti og verk að vinna.
