Skip to content

Samskipti við stjórnvöld

Umsagnir um opinber mál

Samtök ferðaþjónustunnar áttu að venju í miklum samskiptum við stjórnvöld á starfsároinu.  Samskiptin hafa m.a. farið fram með formlegum erindum og  formlegum og óformlegum fundahöldum, t.d. með erindisrekstri fyrir félagsmenn gagnvart ráðuneytum og stofnunum. Þá eru ótalin ýmis formleg og óformleg samskipti starfsfólks og stjórnar SAF við stjórnmálamenn og stjórnsýsluna.

Mikilvægur þáttur í formlegum samskiptum SAF við stjórnkerfið er að samtökin veita umsagnir um fjölmörg opinber mál árlega. Umsagnir sem SAF veita um mál eru aðgengilegar á vef Alþingis, á Samráðsgátt stjórnvalda og á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga. 

Umsagnir sem veittar voru á starfsárinu eru einnig aðgengilegar á vef SAF. Alls sendu SAF inn, í eigin nafni og í samstarfi við önnur samtök, 40 umsagnir til stjórnvalda um frumvörp, reglugerðir, stefnur og fleira. Sjónarmiðum SAF um hin ýmsu málefni hefur því verið komið til skila til stjórnvalda. 

Erlent samstarf

Samstarf við systursamtök í Evrópu og á Norðurlöndum

Hluti af starfi Samtaka ferðaþjónustunnar er að bera saman bækur sínar um starfsumhverfi greinarinnar við systursamtök á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Samskipti af þessu tagi eru afar gagnleg þar sem upplýsingar sem þar koma fram nýtast í samræðum og rökfærslum um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi.

Nordisk besöksnäring 

SAF eru aðilar að formlegum samstarfsvettvangi hótel- og veitingasamtaka á Norðurlöndum, Nordisk Besöksnäring. Þar eiga sér stað umræður um rekstrarumhverfi fyrirtækja, vinnumarkaðsmál og kjarasamninga, sjálfbærnistefnu o.fl sem SAF geta nýtt sér í samtölum við stjórnvöld. Framkvæmdastjóri  SAF sótti fund samtakanna í í Finnlandi í mars 2023, en í febrúar 2024 var vorfundur samtakanna haldinn á Íslandi þar sem framkvæmdastjórar og upplýsingafulltrúar allra norrænu samtakanna hittust þá á fundum á Iceland Parliament Hotel í Reykjavík. 

HOTREC

SAF eru formlegur aðili að evrópsku hótel- og veitingasamtökunum HOTREC. Framkvæmdastjóri SAF sótti ársfundi  HOTREC sem haldnir voru á Tenerife í apríl og í Brussel í október 2023. Ársfundir HOTREC eru hefðbundið haldnir í formennskuríkjum Evrópusambandsins á hverjum tíma og er áhersla m.a. lögð á að byggja upp gagnkvæma þekkingu og samskipti um málefni ferðaþjónustu við stjórn og embættismannakerfi ESB. Skrifstofa SAF hefur töluverð og regluleg samskipti við skrifstofu HOTREC í Brussel varðandi fjölmörg mál er varða Evrópuregluverk um ferðaþjónustu og áformaðar breytingar á því, m.a. hvað varðar söfnun og miðlun upplýsinga um líkleg áhrif breytinga á félagsmenn SAF á Íslandi.  

Nordisk persontransport

SAF eiga miklum samskiptum við systursamtök innan hópbifreiðageirans á Norðurlöndum. Að jafnaði hittast samsökin tvisvar á ári.  Fundur var í Reykjavík í september 2023 og sáu verkefnastjórar SAF um skipulag fundarins. Þessi samskipti eru afar mikilvæg við að tryggja að umhverfi í rekstri hópbifreiða hér á landi sé í samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.  Þannig er t.d. talsveð umræða i hópnum um fyrirkomulag og eftirlit með gestaflutningum sem og framkvæmd endurmenntunar og meiraprófsnáms í löndunum.

NordPass – Nordisk Passagerarbåt Förening 

Samtök ferðaþjónustunnar eru aðilar að samtökum útgerða með farþegaskip og -báta (Nordpass). Samtökin hittast á hverju hausti en vegna aðstæðna hefur ekki ferið fundað síðan árið 2019. Gert er ráð fyrir fundi í Danmörku síðar á árinu 2024.  SAF hafa átt í talsverðum óformlegum samskiptum við aðila innan Nordpass og leitað upplýsinga um fyrirkomulag ferjusiglinga, mönnun, öryggisstjórnun, búnað o.fl. sem nýst hafa í samræðum og samskiptum við Samgöngustofu um fyrirkomulag ferjusiglinga hér við land.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Efling hæfni, menntunar og gæða í ferðaþjónustu á forsendum atvinnugreinarinnar

Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir miklum skaða af völdum faraldursins og mikilvægt er að viðhalda og bæta þekkingu og hæfni í greininni. 

SAF eiga mikið og gott samstarf í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar en SAF hafa leitt þá vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfnisetursins sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2024. Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk samstarfs við fræðsluaðila, og skóla víða um land.

Á vef Hæfnisetursins má sjá helstu verkefni sem unnið hefur verið að í fræðslumálum greinarinnar á árinu og nálgast verkfærakistu fyrir ferðaþjónustuaðila.

IÐAN fræðslusetur

Samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina

Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR er samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina. Aðild að matvæla- og veitingasviði eiga SAF, Samtök iðnaðarins (SI) og MATVÍS. Hlutverk matvæla- og veitingasviðs er að stuðla að bættri menntun og hæfni starfsmanna í hótel- og matvælagreinum og vinna að auknum gæðum og framleiðni fyrirtækjanna sem leiðir til betri samkeppnisstöðu þeirra og bættra lífskjara. 

SAF eiga í samstarfi um ýmis verkefni með IÐUNNI. SAF tilnefnda fulltrúa í  stjórn og fagráð iðunnar. Meðal verkefna  sem samstarf er um er m.a. að tryggja framboð námskeiða, eftirfylgni með fagnámi matvælagreina, eftirfylgni með raunfærnimati í matvæla og veitingagreinum, framþróun í námsframboði í matvælagreinum og öðrum faggreinum ferðaþjónustu o.fl. 

Félagsmenn fá um 75% afslátt af námskeiðum matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR og reglur um endurgreiðslur og styrki til félagsmanna er að finna á vef IÐUNNAR.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins

Stuðningur við markmið stjórnvalda um loftslagsmarkmið

Haustið 2022 hófu aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins vinnu við Loftslagsvegvísa atvinnulífsins til stuðnings markmiða stjórnvalda. Vegvísarnir eru tillögur um aðgerðir og úrbætur sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum með það að markmiðið að stuðla að því að loftslagsmarkmið stjórnvalda náist.  Vegvísarnir eru lifandi verkefni sem eru uppfærð reglulega eftir því sem verkefninu vindur fram og eru unnir á forsendum atvinnulífsins.

Í heildina unnu SA og aðildarfélögin ellefu vegvísa með hátt í 350 tillögur að aðgerðum og útbótum. Komu Samtök ferðaþjónustunnar að fjórum þeirra; farþegasiglingum, ferðaþjónustu, flugi og vegasamgöngum.  

Á vegum SAF komu hátt í 200 aðilar að vinnunni, í gegnum vinnustofur, viðtöl og ýmiskonar vinnufundi. Leiðtogar vinnunnar fyrir hönd SAF voru Katrín Georgsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri hjá Elding hvalaskoðun; Birgir Guðmundsson, hótelstjóri Hilton Reykjavík Nordica; Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Icelandair; og Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Höldur ehf.

Unnið verður að uppfærslu á loftslagsvegvísunum á komandi haustmánuðum og mun vinnan fara fram í gegnum fagnefndir og vinnuhópa SAF.

Stefnumótun í ferðaþjónustu

Uppfærsla á stefnuramma og aðgerðarbinding

Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 sem lauk í byrjun árs 2023. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. 

Í uppfærðum stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlunin mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum.

Í maí 2023 skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi  á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

SAF hafa tekin virkan þátt í vinnunni og m.a. setið í stýrihóp og skipað í vinnuhópa ásamt því að leggja til aðgegni að starfsfólki SAF.

SAF hvetur félagsmenn til að kynna sér stefnuna og aðgerðaráætlun á https://www.ferdamalastefna.is

Skattspor ferðaþjónustunnar

Skýrsla Reykjavík Economics um skattspor ferðaþjónustu 2022

Skattspor ferðaþjónustunnar árið 2022 var kynnt á morgunverðarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka atvinnulífsins Hótel Reykjavík Grand fimmtudaginn 7. desember 2023. Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi ætti að vera orðið öllum ljóst enda er atvinnugreinin er ein stærsta útflutningsstoð þjóðarbúsins. Á undanförnum árum hefur orðræða landsmanna og stjórnmálanna hins vegar oftar en ekki verið á þann veg að ferðaþjónusta skili litlu eða að minnsta kosti ekki nægjanlega miklu til hins opinbera eða samfélagsins. Um ákveðin tímamót er að ræða þar sem skattsporið hefur ekki verið tekið saman með þessum hætti áður fyrir ferðaþjónustu.

Niðurstaða skýrslunnar er að heildar skattspor ferðaþjónustu árið 2023 var 152 milljarðar króna. Þegar þetta er sett í samhengi við þá staðreynd að hlutur ferðaþjónustu af útflutningstekjum þjóðarbúsins var orðinn um 35% á árinu 2023 liggur ljóst fyrir að mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir rekstur ríkisins og lífskjör fólks í landinu er afgerandi. Það sýnir hve mikilvæg atvinnugreinin er orðin og ætti að hvetja stjórnmálamenn til að gefa rekstrarumhverfi hennar og samkeppnishæfni betri gaum en hingað til.